Víðsjá

Þáttur fyrir áhugafólk um listir og menningu. Ljósi varpað á það sem efst er á baugi hverju sinni, menningin nær og fjær skoðuð frá ólíkum sjónarhornum og skapandi miðlar settir undir smásjána. Umsjón: Kristján Guðjónsson og Guðni Tómasson.

  • 53 minutes 34 seconds
    Ifigenía í Ásbrú, Unnar Örn í Óminnissafni, Moldin heit/rýni
    Í Glerhúsinu stendur nú yfir sýning sem ber titilinn Óminnissafnið - varðveislu- og rannsóknardeild. Þar sýnir myndlistarmaðurinn Unnar Örn Auðarson afrakstur vangaveltna um tilraunir okkar til að skjalfesta tímann með söfnun og skrásetningu á upplýsingum úr umhverfi og samfélagi. Við hittum Unnar Örn í þætti dagsins. Við heyrum einnig bókarýni en að þessu sinni rýnir Gréta Sigríður EInarsdóttir í skáldsöguna Moldin heit, eftir Birgittu Björgu Guðmarsdóttur, en sú bók hefur verið tilnefnd bæði til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Fjöruverðlaunanna. En við hefjum þáttinn á því að kynna okkur leikverkið Ifigenía í Ásbrú sem verður frumsýnt í Tjarnarbíói í næstu viku. Verkið er einleikur og upprunalegur titill þess er Iphigenia in Splott en þær Anna María Tómasdòttir leikstjóri og Þórey Birgisdóttir leikkona þýddu og staðfærðu verkið fyrir íslenska sviðið.
    7 January 2025, 4:05 pm
  • 53 minutes 3 seconds
    Mörsugur, Augljós í Neskirkju, Köttur á heitu blikkþaki / rýni
    Við hefjum þáttinn á því að fara í kirkju. Augljós kallast sýning sem opnaði þann 8.desember í Neskirkju og stendur yfir fram til 20.janúar. Þar sýnir Þórdís Erla Zoega ljósaverk sem sækja innblástur í kirkjuglugga og vinnur með sjónrænar skynvillur sem hvetja áhorfandann til að líta inn á við. Við kynnum okkur einnig nýtt verk, Mörsugur, óperu fyrir rödd með rafhljóðum og myndbandsverki, byggða á ljóðsögu eftir Ragnheiði Erlu Björnsdóttur. Mörsugur varð til í samsköpunarferli Ásbjargar Jónsdóttur tónskálds, Heiðu Árnadóttur söngkonu og Ragnheiðar Erlu Björnsdóttur ljóðskálds og tónskálds og nú fyrir helgi kom út bókverk með ljóðsögunni, ásamt grafískum útfærslum og stillum úr myndverki sem Ásdís Birna Gylfadóttir vann við Mörsug. Þær Heiða og Ásbjörg koma til okkar í hljóðstofu og segja okkur nánar af verkefninu. Trausti Ólafsson rýnir í Kött á heitu blikkþaki sem frumsýnt var í Borgarleikhúsinu þann 28.desember.
    6 January 2025, 4:05 pm
  • 50 minutes 41 seconds
    Víðsjá og Lestin líta yfir farinn veg og til framtíðar - Fyrri hluti
    Sameiginlegur þáttur Víðsjár og Lestarinnar í upphafi ársins 2025. Í þáttum dagsins höldum við úr húsi, förum inn í lágvöruverslunina Prís í Kópavogi, verslunarmiðstöðina Eiðistorg á Seltjarnarnesi, vöðum slabbið út í strætóskýli og tökum líka upp tólið og hringjum út á land: austur, vestur, norður og suður. Hvað var fólk í Prís að hugsa rétt eftir jólin og hvað finnst unglingum á Eiðistorgi um bækur? Hvaða áhrif hefur risa myndlistarsýning á verkum Roni Horn í strætóskýlum á gangandi vegfarendur, nú eða akandi strætóbílstjóra? Hvað er low taper fade, hvað er best að gera á Benidorm og hvernig leggst þetta nýja ár í okkur? Umsjón: Kristján Guðjónsson, Halla Harðardóttir, Lóa Björk Björnsdóttir og Melkorka Ólafsdóttir
    2 January 2025, 4:05 pm
  • 51 minutes 31 seconds
    Menningarárið 2024
    Víðsjá og Lest setjast niður í hljóðstofu og rifja upp árið 2024.
    30 December 2024, 4:05 pm
  • 47 minutes 53 seconds
    Jólalag ríkisútvarpsins 2024, Guðrún Hannesdóttir - Kallfæri, Sporðdrekar/rýni, Himintungl yfir heimsins ystu brún/rýni
    Í lok Víðsjár verður jólalag ríkisútvarpsins árið 2024 frumflutt, ásamt kynningu höfundar á laginu. Frá því í október hafa umfjallanir um bækur raðast inn í vikurnar í Víðsjá, eins og jólaskraut á tré. Bókarýnarnir okkar þrír hafa tínt upp úr jólakistlinum fjölbreyttar gjafir flóðsins og fært í samhengi og í dag veljum við úr kistlinum dýrindis gripi. Soffía Auður Birgisdóttir fjallar um skáldsögu Jóns Kalman, Himintungl yfir heimsins ystu brún og Sölvi Halldórsson fjallar um skáldsögu Dags Hjartarsonar, Sporðdreka. Þessa vikuna höfum við fjallað um ljóðabækur, sem eru eins og fíngerðasta og fallegasta skrautið, gripirnir sem raðast efst á tréð. Og í þessum síðasta þætti fyrir jól fær undurfögur og lítillát ljóðabók að bregða sér í hlutverk stjörnunnar á toppi trésins, það er ljóðabókin Kallfæri, eftir Guðrúnu Hannesdóttur. Bókin er tíunda ljóðabók Guðrúnar, sem hélt upp á áttræðisafmæli sitt í sumar, en gaf út sína fyrstu ljóðabók árið 2007. Guðrún heimsótti hljóðstofu Víðsjár í morgun. Með frumflutningi jólalags ríkisútvarpsins 2024 í lok þáttar óskar Víðsjá hlustendum sínum bjartra og gleðilegra jóla og þakkar samfylgdina á árinu sem er að líða. Umsjón: Halla Harðardóttir og Melkorka Ólafsdóttir
    19 December 2024, 4:05 pm
  • 49 minutes 7 seconds
    Bára Gísladóttir í Svipmynd, Flaumgosar / rýni
    Bára Gísladóttir tónskáld og kontrabassaleikari er fædd í Reykjavík árið 1989. Fjölskyldan fluttist í nokkur ár til Noregs þegar Bára var fimm ára og það var þar sem hún hóf nám á fiðlu. Hún segist þó aldrei hafa náð tengingu við fiðluna og það var ekki fyrr en hún kynntist kontrabassanum 17 ára gömul í Nýja Sjálandi að hún upplifði djúpa og sterka tengingu við hljóðfæri. Bára nam tónsmíðar við Listaháskóla Íslands, Verdi Akademíuna í Mílanó og Konunglegu tónlistarakademíuna í Kaupmannahöfn og hún hefur búið í Kaupmannahöfn síðastliðin 10 ár. Tónsmíðar Báru þykja einstakar, nýstárlegar og djarfar. Sjálf segir Bára sína tónlist byggja á hugmyndinni um hljóðið sem lífveru. Verk hennar eru margverðlaunuð og hafa verið flutt víða, bæði af stórum hljómsveitum sem og minni kammerhópum auk þess að vera flutt á tónlistarhátíðum víðsvegar um heiminn. Fjöldi tónlistarmanna, tónlistarhópa og hljómsveita hafa pantað hjá henni verk, en Bára sjálf er einnig virkur flytjandi. Meira um það í þætti dagsins. Og Soffía Auður Birgisdóttir um ljóðabókina Flaumgosa eftir Sigurbjörgu Þrastardóttur.
    18 December 2024, 4:05 pm
  • 49 minutes 30 seconds
    Rifsberjadalurinn, Tríó Esja, Friðsemd / rýni
    Ásdís Óladóttir samdi sitt fyrsta ljóð níu ára gömul en sýndi það ekki nokkurri manneskju. Hún tók upp þráðinn á ný átján ára gömul og byrjaði þá markvisst að skrifa. Ásdís var greind með geðklofa rúmlega tvítug og síðan þá hefur skáldskapurinn verið haldreipi hennar í lífinu. Hún hefur gefið út níu ljóðabækur og í þeirri nýjustu sem kallast Rifsberjadalurinn fjallar Ásdís í fyrsta sinn um þá lífsreynslu að veikjast, leitina að skýringum og leiðina til betra lífs. Ásdís verður gestur okkar í dag og segir okkur frá Rifsberjadalnum, en bókin var tilnefnd til Fjöruverðlauna á dögunum. Þær Guðrún Brjánsdóttir, Herdís Ágústa Linnet og Kristín Ýr Jónsdóttir mynda saman Tríó Esju og leika á föstudagskvöldið franska tónlist frá upphafi tuttugustu aldar á tónleikum sem hafa yfirskriftina Speglar. Tónlistin sækir innblástur úr franskri ljóðlist og frumsamin ljóð Guðrúnar fléttast við tónlistina sem þær flytja. Meira um það í þætti dagsins. Soffía Auður Birgisdóttir rýnir í Friðsemd eftir Brynju Hjálmsdóttur.
    17 December 2024, 4:05 pm
  • 51 minutes 50 seconds
    Æskuteikningar Alfreðs Flóka, Veður í Æðum og Þegar sannleikurinn sefur/rýni
    Ragnheiður Lárusdóttir steig fram á ritvöllinn 2020 með ljóðabókina 1900 og eitthvað og hlaut í kjölfarið Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar og tilnefningu til Maístjörnunnar. Þessi fyrsta ljóðabók hennar byggði á bernskuminningum að vestan, en sú næsta, Glerflísakliður, fjallaði meðal annars um veikindi móður Ragnheiðar og erfiðan skilnað. Í síðustu bók sinni, Kona/Spendýr sem kom út 2022 beindi hún sjónum sínum almennt að hlutverki kvenna, sem lifa í heimi hönnuðum af körlum. Í sinni nýjustu ljóðabók, Veður í æðum, er Ragnheiður einnig persónuleg og yrkir um þá lífsreynslu að missa dóttur sína í heim fíkninnar, en líka um fegurðina og lífið sem gengur sinn vanagang þrátt fyrir allt. Halla ræðir við Ragnheiði í þætti dagsins. Við fáum líka bókarýni frá Sölva Halldórssyni, sem að þessu sinni rýnir í nýútkomna glæpasögu Nönnu Rögnvaldsdóttur, Þegar sannleikurinn sefur. En við hefjum þáttinn á því að grúska aðeins í gömlum teikningum. Nú eru til sýnis og sölu í Gallerí Fold æskuteikningar Alfreðs Flóka sem flestar eru frá árunum 1948-1952. Teikningarnar varðveittust innan fjölskyldunnar og þar má sjá inn í hugarheim hins unga Flóka og þekkja kunnugleg stef sem birtust í listaverkum hans ferilinn allan. Framan af voru hugðarefnin dæmigerð fyrir 11 og 12 ára gamlan strák, löggur og bófar, indjánar og kúrekar, þjóðsögur og ævintýri, Charlie Chaplin og Mikki mús, táfýla og yfirburðir KR svo eitthvað sé nefnt. Mikill húmor er í mörgum teikningunum, en einnig ber á ádeilu. Við lítum við á Rauðarárstígnum og ræðum um sýninguna við sýningarstjórann, Iðunni Vignisdóttur. Umsjón: Halla Harðardóttir og Melkorka Ólafsdóttir
    16 December 2024, 4:05 pm
  • 53 minutes 15 seconds
    Parabóla Finnboga Péturssonar, jól í 12 tónum, Kul / rýni, Innanríkið Alexíus /rýni
    Parabóla nefnist ný sýning eftir Finnboga Pétursson, myndlistarmann, sem opnuð var í Gerðarsafni í október. Tómas Ævar lagði leið sína í safnið og ræðir í þættinum við Finnboga. Við lítum einnig inn til Lárusar Jóhannessonar í 12 tónum og heyrum af jólatónlist. Gréta Sigríður Einarsdóttir rýnir í Kul eftir Sunnu Dís Másdóttur en við hefjum þáttinn á rýni Sölva Halldórssonar í Innanríkið Alexíus eftir Braga Ólafsson.
    12 December 2024, 4:05 pm
  • 51 minutes 4 seconds
    Þórarinn Eldjárn - Svipmynd
    Þórarinn Eldjárn fæddist í Reykjavík árið 1949. Megnið af uppvaxtarárunum bjó hann í Þjóðminjasafninu, eða þar til að faðir hans, Kristján Eldjárn, varð forseti Íslands og fjölskyldan flutti á Bessastaði. Heimilislífið einkenndist af húmor og unun af skáldskap og bestu tilsvörin voru í bundnu máli. Þórarinn lærði bókmenntafræði og heimspeki í Lundi í Svíþjóð og segist kannski meðvitað hafa reynt að læra eitthvað sem gerði hann lítt hæfan á almennum vinnumarkaði. Þórarinn var heimavinnandi húsfaðir í Svíþjóð þegar hann gaf út sína fyrstu bók, ljóðabókina Kvæði árið 1974. Bókin vakti mikla athygli og með henni skapaði Þórarinn sér strax sína sérstöðu; að yrkja háttbundin ljóð utan um hversdagsleg viðfangsefni, þar sem kímnin er aldrei langt undan. Þessi einkenni hafa fylgt skáldskap Þórarins alla tíð síðan þó hann hafi fljótlega afsannað það fyrir sjálfum sér og öðrum að hann þyrfti á bragarháttunum að halda til þess að koma frá sér góðum texta. Það er óhætt að segja að Þórarinn sé afkastamikill höfundur. Á 50 ára starfsævi hefur hann sent frá sér fjöldan allan af ljóðabókum, skáldsögum og smásagnasöfnum auk þess að vera ötull þýðandi. Hann hefur auk þess samið fjölda ljóðabóka fyrir börn í samstarfi við systur sína Sigrúnu Eldjárn og hlotið fyrir þær fjölmargar viðurkenninar. Þórarinn var borgarlistamaður Reykjavíkur árið 2008 og hlaut Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar á degi íslenskrar tungu árið 1998. Auk þessa hafa bækur hans hlotið Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana. Skáldsaga hans Brotahöfuð var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 1999 og 2013 hlaut hann Viðurkenningu Sænsku akademíunnar fyrir kynningu á sænskri menningu erlendis. Þórarinn Eldjárn er gestur okkar í svipmynd dagsins. Umsjón: Halla Harðardóttir og Melkorka Ólafsdóttir
    11 December 2024, 4:05 pm
  • 50 minutes 26 seconds
    Auður Lóa Í rósrauðum bjarma, Múffa / rýni, jazzperlur í Múlanum
    Hakk og spagetti af blendnum tilfinningum, segir Auður Lóa Guðnadóttir um sýninguna Í rósrauðum bjarma / In watermelon sugar sem nú stendur yfir í gallerí Þulu í Marshallhúsinu. Auður Lóa sækir fanga víða þegar kemur að innblæstri, en í verkunum má sjá þekkt minni úr dægurmenningunni. Vinnuaðferðir hennar vísa í keramikhefð og það sem hefur löngum verið kallað kvennalist, og segist Auður Lóa að einhverju leyti vinna gagngert á móti eigin fyrirframgefnu hugmyndum um hvað sé merkileg myndlist. Það er ekki á hverjum degi, og raunar mjög sjaldgæft, að jazzband sem eingöngu er skipað konum treður upp á Múlanum, en það gerist annað kvöld. Þá munu þær Helga Margrét Clarke og Vigdís Þóra Másdóttir, ásamt hljómsveit, bera á borð íslenskar jazzperlur úr eigin smiðju og annarra. Við ræðum við þær stöllur í þætti dagsins. Gréta Sigríður Einarsdóttir verður einnig með okkur í þætti dagsins, að þessu sinni rýnir hún í skáldsöguna Múffu eftir Jónas Reyni Gunnarsson.
    10 December 2024, 4:05 pm
  • More Episodes? Get the App
© MoonFM 2025. All rights reserved.