Spegillinn

RÚV

Fréttir og fréttaskýringar í útvarpi þar sem kafað er dýpra í málin, þau sett í stærra samhengi og skýringa leitað.

  • 20 minutes 3 seconds
    Trump og Grænland, rafeldsneyti og fjármál fangelsismálastofnunar
    Í gær átti Donald Trump yngri stutt stopp í Nuuk á Grænlandi. Þessi litla heimsókn hefur aðallega vakið athygli vegna yfirlýsinga föðurins, Donalds Trumps verðandi Bandaríkjaforseta fyrir nokkrum vikum um að það væri alveg nauðsynlegt fyrir öryggi Bandaríkjanna og frið í heiminum að Grænland tilheyrði Bandaríkjunum. Slíkar hugmyndir hafði Trump viðrað áður 2019 og ekki voru undirtektir jákvæðar í Danmörku þá frekar en nú. Hinn verðandi forseti sagðist í gær tilbúinn að beita afli gegn Dönum ef þeir mögluðu, og útilokaði reyndar ekki þegar blaðamaður spurði hvort til greina kæmi að beita hervaldi. Anna Kristín Jónsdóttir fjallar um þetta og ræðir við Silju Báru Ómarsdóttur prófessor í alþjóðastjórnmálum, sem segir að þótt ekki beri að taka orð Trumps bókstaflega, þá sé fyllsta ástæða til að taka þau alvarlega. Í raforkuspá fyrir næstu 25 ár gerir Landsnet ráð fyrir stóraukinni þörf á orku til framleiðslu rafeldsneytis. Tvö stór verkefni eru í undirbúningi ár sem ætlunin er að nota vindorku til að framleiða vetni og ammoníak. Gnýr Guðmundsson, forstjóri kerfisþróunar hjá Landsvirkjun, segir þróun rafeldsneytis ganga hægt, eftirspurnina vera óvissa og mörgum spurningum enn ósvarað. Gréta Sigríður Einarsdóttir tók saman. Það vakti nokkra athygli í haust þegar starfandi fangelsismálastjóri boðaði nokkuð umfangsmiklar hagræðingaraðgerðir hjá stofnuninni. Ástæðan var 8 milljóna króna gat í fjármögnun á rekstri stofnunarinnar. Í greinargerð sem sviðsstjóri reksturs og fjármála hjá Fangelsismálastofnun sendi dómsmálaráðuneytinu kemur fram að rekstraráætlunin sem skilað var hafi sýnt ágæta niðurstöðu innan fjárveitingaramma - en að . þegar fjárlagafrumvarpið hafði verið samþykkt hafi komið í ljós, „talsverður misskilningur“. Freyr Gígja Gunnarsson tók saman. Umsjón: Ævar Örn Jósepsson Tæknimaður: Mark Eldred
    8 January 2025, 6:10 pm
  • 20 minutes
    Forstjóri Haga bjartsýnn á að vöruhúsið leysist og staðan í Úkraínu
    Borgarstjórn samþykkti á fundi sínum í dag tillögu Sjálfstæðisflokks og Flokks fólksins um að fram fari stjórnsýsluúttekt á skipulagsferlinu í kringum græna vöruhúsið við Álfabakka 2 sem byrgir íbúum við Árskóga sjö sýn. Forstjóri Haga er bjartsýnn á að málið leysist. Daglega berast fréttir af því að Rússar hafi sölsað undir sig fleiri þorp, fleiri bæi og meira land í austanverðri Úkraínu, eyðilagt þar orkuinnviði og varpað sprengjum á hinar ýmsu úkraínsku borgir og bæi fjarri víglínunni, þar á meðal höfuðborgina. Ævar Örn Jósepsson ræddi við Hilmar Þór Hilmarsson, prófessor við háskólann á Akureyri, um stöðuna í landinu.
    7 January 2025, 6:10 pm
  • 20 minutes
    Formannsslagur framundan í Sjálfstæðisflokki
    Nokkuð óvænt tilkynning Bjarna Benediktssonar um miðjan dag um að hann ætlaði ekki að taka sæti á þingi og gæfi ekki kost á sér í formannskjöri Sjálfstæðisflokksins verður viðfangsefni þáttarins og rætt verður við þær Evu H. Önnudóttur prófessor og Jóhönnu Vigdís Hjaltadóttur fréttamann. Þingmönnum sjálfstæðisflokksins flokksins var brugðið þegar Bjarni sagði þeim frá ákvörðun sinni í dag, líklega er leitun að stjórnmálamanni sem hefur verið jafn umtalaður síðustu ár og áratugi.
    6 January 2025, 6:10 pm
  • 20 minutes
    Sparnaður í samráðsgátt og klamydía ógnar kóalabjörnum
    En það vakti nokkra athygli þegar Kristrún Frostadóttir, forsætisráðherra, fór þá leið að óska eftir ábendingum frá almenningi um hvernig væri hægt að spara í ríkisrekstrinum. Ekki stóð á viðbrögðunum; nærri fimmtán hundruð athugasemdir hafa verið sendar inn á samráðsgátt stjórnvalda og þar má sjá allskonar hugmyndir; leggja niður RÚV, loka landinu fyrir hælisleitendum, hætta að veita áfengi í veislum og fækka sendiráðum. Fresturinn til að skila inn umsögn rennur út í lok mánaðar og eftir það fer sérstakur hópur á vegum forsætisráðuneytisins yfir ábendingarnar. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, og Guðmundur Ari Sigurjónsson, þingmaður Samfylkingarinnar, fara yfir málið. Klamydía ógnar tilvist einhverrar allra krúttlegustu skepnu heims - kóala- eða pokabjarnarins ástralska. Vísindamenn vinna hörðum höndum að því að þróa bóluefni til að forða þeim frá útrýmingu.
    3 January 2025, 6:10 pm
  • 20 minutes
    Sparnaðarráð frá almenningi til stjórnvalda, hryðjuverk í Louisiana og Holtavörðulína 1
    Um miðjan dag birtist í samráðsgátt stjórnvalda ósk frá ríkisstjórninni um tillögur frá almenningi um hvernig megi hagræða í ríkisrekstri. Tekið verður á móti ábendingum til 23. janúar og þá verður farið yfir þær allar af starfshópi á vegum forsætisráðuneytisins. Og ekki stóð á viðbrögðum, á nokkrum klukkutímum voru komnar hátt í þrjúhundruð umsagnir. Rætt við Evu Marín Hlynsdóttur, prófessor í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands Er hægt að svara því hvað varð til þess að hæglætismaður fæddur í Texas ók bíl inn í mannþröng í Louisiana og varð fjölda fólks að bana um áramótin. Bændur í Borgarfirði gagnrýna áform um Holtavörðuheiðarlínu 1 sem á að liggja þvert í gegnum uppsveitir Borgarfjarðar. Landsnet segir línuna vera af nýrri kynslóð byggðalína og vill að skipuð verði raflínunefnd til að tryggja að skipulagsferlið tefjist ekki.
    2 January 2025, 6:10 pm
  • 20 minutes
    Öfgar í veðri 2024, röddun að hverfa en höggmæli sækir á
    Árið 2024 verður það heitasta frá upphafi mælinga, enn heitara en 2023 sem rústaði fyrir hitametum sagði Celeste Saulo, framkvæmdastjóri Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar þegar hún kynnti skýrslu um öfgar í veðrurfari í ár. Antonio Guterrez framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna sagði þá að jörðin hefði mátt þola mannskaðahita í áratug. Varla er hægt að tala um mállýskur á Íslandi en staðbundin einkenni í framburði eru vel þekkt eins og norðlenskt harðmæli og röddun, hv- og einhljóðaframburður á Suðurlandi og í Skaftafellssýslum. Norðlenskan hefur löngum verið talin einkar skýr og harðmælið virðist halda velli en röddunin er á undanhaldi. Ný tilbrigði á borð við höggmæli og tvinnhljóðaframburð eru svo að ryðja sér til rúms. Finnur Friðriksson, dósent við Háskólann á Akureyri er einn stjórnanda stórrar rannsóknar á breytingum á framburði íslensku.
    30 December 2024, 6:10 pm
  • 20 minutes
    20 ár frá flóðbylgjunni
    Þátturinn í kvöld er að þessu sinni helgaður einu efni, flóðbylgjunni í Suðaustur-asíu fyrir tuttugu árum. Fyrir jól settist umsjónarmaður niður með Pétri Ásgeirssyni, nú sendiherra í Danmörku, sem var á þessum tíma yfir því sem kallað er borgaraþjónustan í dag og Friðriki Sigurbergssyni, lækni, sem fór á vegum íslenskra stjórnvalda ásamt hópi heilbrigðisstarfsfólks, til Taílands að sækja slasaða Svía.
    27 December 2024, 6:10 pm
  • 20 minutes
    Hverjir verða ráðherra og svört Lúsía kallar fram það versta og besta í Finnum
    Ný ríkisstjórn verður kynnt á morgun, ríkisráðsfundur verður á Bessastöðum og lyklaskipti á sunnudag. Fáir vita hins vegar hverjir verða ráðherrar nema kannski leiðtogar stjórnarflokkanna þriggja. Andrés Ingi Jónsson og Eva H Önnudóttir stóðust ekki freistinguna og rýndu í ráðherrakapal og hvernig stjórnarsáttmálinn kemur til með að líta út. Og svo er það Lúsían í Finnlandi sem hefur kallað fram það versta en líka það besta í Finnum. Hún heitir Daniela Owusu, á ætti að rekja til Ghana og er dökk á húð og hár.
    20 December 2024, 6:10 pm
  • 20 minutes
    Réttarhöld í kynferðismálum, stríðsglæpir Ísraela og jólaleg jólalög
    Meginregla er að réttarhöld eru opin en venjan hér í kynferðisbrotamálum er að þau séu lokuð til að verja persónulega hagsmuni. Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari segir sterk rök fyrir því að opna slík réttarhöld, vilji brotaþoli senda þau skilaboð að hann hafi ekkert til að skammast sín fyrir, líkt og hin franska Giselle Pélicot gerði. Anna Kristín Jónsdóttir ræðir við Kolbrúnu. Alþjóðlegu mannréttindasamtökin Human rights watch, eða Mannréttindavaktin, sem eru með höfuðstöðvar í Bandaríkjunum, bættust í dag í stækkandi hóp þeirra sem saka Ísraelsmenn um stórfelld mannréttindabrot, brot á alþjóðalögum og sáttmálum og alvarlega glæpi sem stappa nærri þjóðarmorði. Mannúðar- og mannréttindasamtökin Læknar án Landamæra komast að svipaðri niðurstöðu í sinni skýrslu, sem líka kom út í dag. Ísraelar svara samtökunum eins og öllum öðrum sem saka þá um stríðsglæpi og þjóðarmorð, með ásökunum um lygar og gyðingahatur. Hvað gerir jólalag að jólalagi? Er það textinn sem er sunginn eða er til ákveðinn jólahljómur? Freyr Gígja Gunnarsson leitar svara við þeirri áleitnu spurningu hjá tónlistarmanninum Magnúsi Jóhanni Ragnarssyni. Umsjón: Ævar Örn Jósepsson Tæknimaður: Magnús Þorsteinn Magnússon
    19 December 2024, 6:10 pm
  • 20 minutes
    Búseti og skemman stóra, Ísland og Úkraína, svakalega sveiflukennt rafmagnsverð á Norðurlöndum
    Búseti fór þess á leit við byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar um miðjan nóvember að framkvæmdir við vöruhúsið sem nú rís við Álfabakka yrðu stöðvaðar. Þetta kemur fram í gögnum sem Spegillinn fékk afhent í dag. Vöruhúsið byrgir íbúum fjölbýlishúss við Árskóga sjö sýn, blokk sem Búseti byggði. Í bréfi Búseta frá í nóvember kom meðal annars fram að á lóðinni væri verið að reisa fjögurra hæða hús, tólf metra háa byggingu, sem ætti sér enga stoð í útgefnu byggingarleyfi eða svörum skipulagsfulltrúa við fyrirspurn frá áhyggjufullum hjónum sem óttuðust að birtan yrði tekin frá þeim ef svona hátt hús myndi rísa á reitnum. Verkefnisstjóri hjá skipulagsfulltrúa sefaði áhyggjur hjónanna og taldi sig nánast geta fullyrt að slíkt myndi ekki gerast. Freyr Gígja Gunnarsson fjallar um þetta og ræðir við Hildi Björnsdóttur, oddvita Sjálfstæðisflokks í borgarstjórn. Staðan í Úkraínu, mögulegar friðarviðræður og hugmyndir um friðargæslulið verða líklega á dagskrá fundar í Brussel kvöld, þar sem Volodymyr Zelensky Úkraínuforseti hittir leiðtoga Evrópusambandsins og nokkurra Evrópuríkja, þar á meðal Íslands. Zelensky fundaði með leiðtogum tíu Evrópuríkja í gær, þeirra á meðal Mette Fredriksen, forsætisráðherra Danmerkur, og Keir Starmer, forsætisráðherra Bretlads, sem Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, starfandi utanríkisráðherra, segir hafa fengið afgerandi skilaboð í veganesti. Björn Malmquist ræðir við Þórdísi Kolbrúnu. Þetta er galið raforkukerfi og Svíþjóð getur ekki búið við kerfi sem er svona háð duttlungum veðráttunnar, sagði Ebba Busch, orkumálaráðherra Svíþjóðar þegar rafmagnsverð þar rauk upp úr öllu valdi í síðustu viku. Danir supu líka hveljur þegar þeim varð litið á rafveitu-öppin sín, sem birta rafmagnsverð í rauntíma – en á fimmtudaginn var, klukkan fjögur síðdegis, kostaði kílóvattstundin ellefu danskar krónur – rúmar tvö hundruð íslenskar, sem þýðir að passlega heit fimm mínútna sturta kostaði þúsundkall. Ævar Örn Jósepsson skoðaði málið. Umsjón: Ævar Örn Jósepsson Tæknimaður: Magnús Þorsteinn Magnússon
    18 December 2024, 6:10 pm
  • 20 minutes
    Hægt að breyta vöruhúsinu en borgin þarf að borga, 13% kusu taktískt
    Það er hægt að gera breytingar á græna vöruhúsinu sem byrgir íbúum fjölbýlishúss við Árskóga sjö í Reykjavík sýn. Þetta segir annar af hönnuðum hússins. En það er borgarinnar að greiða fyrir það. Ólöf Örvarsdóttir sviðsstjóri skipulagssviðs Reykjavíkur segist engu geta lofað öðru en samtali. Það hefur mikið verið rætt um taktískar kosningar í ár, fyrst í forsetakosningunum og svo í Alþingiskosningunum um daginn og nú er búið að rannsaka hvernig fólk kaus taktíkst í forsetakosningunum og hve margir. Rætt er við Viktor Orri Valgarðsson doktor í stjórnmálafræði.
    17 December 2024, 6:10 pm
  • More Episodes? Get the App
© MoonFM 2025. All rights reserved.