Markmannshanskarnir hans Alberts Camus

RÚV

Dóp, heimspeki, Guð, vonbrigði, fagurfræði og furðufuglar - öllu þessu fáum við að kynnast þegar skyggnst er bak við tjöldin í heimi íþróttanna og íþróttamaðurinn og líf hans er skoðað frá öðru sjónarhorni en við gerum venjulega. Umsjón: Guðmundur Björn Þorbjörnsson.

  • Áttundi þáttur - Leitin að hinum sanna snillingi
    Í áttunda og síðasta þætti Markmannshanskanna hans Alberts Camus veltir Guðmundur Björn Þorbjörnsson því fyrir sér hvort ákveðnir íþróttamenn geti talist til snillinga. Er það Michael Jordan, Serena Williams, Magnus Carlsen eða Lionel Messi? Margir eru kallaðir en fáir útvaldir. Snillingur er ekki það sama og snillingur, og hér er lagður dómur á það hvaða kríteríu hinn eini sanni íþróttasnillingur þarf að hafa, til þess að komast í gegnum nálaraugað og verða útnefndur snillingur snillinganna. Og það er að sjálfsögðu Mozart, snillingur sem á sér enga líka, sem fylgir okkur alla leið í þessari leit. Tæknimenn þáttarins eru Hrafnkell Sigurðsson og Davíð Berndsen. Lesarar eru Vera Illugadóttir, Guðni Tómasson og Halldór Armand.
    9 December 2017, 10:15 am
  • Sjöundi þáttur - Íþróttamaðurinn og dauðinn
    Í sjöunda þætti Markmannshanskanna hans Alberts Camus fjallar Guðmundur Björn Þorbjörnsson um dauðann, og að sjálfsögðu í tengslum við íþróttir og íþróttamanninn. Það er ýmislegt við dauða íþróttamannsins sem gæti skerpt sýn okkar á íþróttamanninn sjálfan, hvaða hugmyndir við gerum um hann og hvaða væntingar við höfum til hans. Og dauði þeirra kann að opinbera okkur stærri sannleika um okkur sjálf. Rætt er við Loga Gunnarsson, landsliðsmann í körfubolta og Hafrúnu Kristjánsdóttur íþróttasálfræðing.
    2 December 2017, 10:15 am
  • Sjötti þáttur - Af hverju spila hommar ekki fótbolta?
    Í sjötta þætti Markmannshanskanna hans Alberts Camus er fjallað um það hvers vegna hommar spila ekki fótbolta. Vissulega spila jú einhverjir hommar fótbolta - en þeir eru ekkert sérstaklega góðir í fótbolta, eða ná neitt sérstaklega langt ef litið er á hreina og beina tölfræði. Sem er áhugavert, því í hinum vestræna heimi eiga samkynhneigðir karlmenn, yfirleitt, völ á því að lifa að öllu leyti sambærilegu lífi og gagnkynhneigðir; njótu sömu réttinda og fá sömu tækifæri. En innan heims atvinnuknattspyrnunnar finnast þeir varla. Rætt er við Eddu Garðarsdóttur, fyrrum landsliðskonu í fótbolta og Sigríði Ásgeirsdóttur menningarfræðing. Umsjónarmaður er Guðmundur Björn Þorbjörnsson. Tæknimenn þáttarins eru Kolbeinn Soffíuson og Hrafnkell Sigurðsson, lesari er Guðni Tómasson.
    25 November 2017, 10:15 am
  • Fimmti þáttur - Óli Gott og kókaínmistilteinninn úr Keflavík
    Í fimmta þætti er fjallað um það þegar íþróttamaðurinn dettur af vagninum; missir tökin á sjálfum sér, sportinu og veruleikanum - þótt innan vallar virðist allt í lukkunnar velstandi. Hvað veldur því að okkar lánsamasta fólk, okkar bestu menn, leiðast inn á brautir glæpa, fíkniefna og annars ófögnuðar? Gestur þáttarins er Ólafur Gottskálksson, sem um tíma einn af okkar bestu knattspyrnumönnum og spilaði við góðan orðstír í atvinnumennsku erlendis. En hann var líka háður kókaíni og hefur setið inni á Litla-Hrauni. Tæknimaður er Hrafnkell Sigurðsson. Lesari er Vera Illugadóttir.
    18 November 2017, 10:15 am
  • Fjórði þáttur - Um fagurfræði kappleikjalýsinga
    Í fjórða þætti Markmannshanskanna hans Alberts Camus skoðar Guðmundur Björn Þorbjörnsson samband fagurfræði og íþrótta. Hér er þó ekki verið að vísa í fagran líkamsburð íþróttamanna eða neitt þvíumlíkt, heldur fagurfræði frásagnarinnar, kappleikjaslýsinganna og sjálfrar umfjöllunarinnar um leikinn. Að baki hverri góðri sögu býr góður sögumaður, milliliðurinn ómissandi sem miðlar því sem þú skilur ekki, nú eða bara kennir þér eitthvað nýtt og færir þér nýja sýn á leikinn og jafnvel heiminn í leiðinni. Í þættinum ræðir Guðmundur við rithöfundinn Sigurbjörgu Þrastardóttur og sagnfræðinginn Stefán Pálsson. Lesarar í þættinum eru Vera Illugadóttir og Atli Freyr Steinþórsson. Tæknimaður er Hrafnkell Sigurðsson
    11 November 2017, 10:15 am
  • Þriðji þáttur - Þegar hlutirnir ganga ekki upp
    Í þriðja þætti Markmannshanskanna hans Albert Camus er fjallað um það þegar hlutirnir ganga ekki upp. Þegar loforðin rætast ekki, og fyrirheitin bregðast. Í þættinum ræðir Guðmundur Björn Þorbjörnsson við körfuboltamanninn Pavel Ermolinskij og knattspyrnumanninn Ingólf Sigurðsson. Ferlar þeirra Pavels og Ingólfs eru ólíkir, rétt eins og mennirnir sjálfir. Og sýn þeirra á eigin feril er sömuleiðis ólík.
    4 November 2017, 10:15 am
  • Annar þáttur - Stalst í kirkju fyrir leikinn gegn Króötum
    Í öðrum þætti þáttaraðarinnar Markmannshanskarnir hans Albert Camus ræðir Guðmundur Björn Þorbjörnsson við knattspyrnumaninn Emil Hallfreðsson um trú og samband íþróttamannsins við Guð, hvort Guð skipti sér á annað borð af íþróttaleikjum og hvort það stoði nokkuð að leita til Guðs, þegar það eru 20 metrar á sekúndu og þið eruð einum manni færri. Í þættinum er einnig rætt um muninn á því að vera trúaður íþróttamaður í Bandaríkjunum eða Suður-Ameríku, og á hinu guðlausa Íslandi. Við heyrum í Tim Teabow og Lebron James og kíkjum í Vatíkanið til að rifja upp þegar Emil knúsaði páfann, að hætti hafnfirskra hvítasunnumanna. Umsjónarmaður er Guðmundur Björn Þorbjörnsson. Tæknimaður er Hrafnkell Sigurðsson.
    28 October 2017, 10:15 am
  • Fyrsti þáttur - Ólafur Stefánsson og mýtan um áhugaverða íþróttamannin
    Í fyrsta þætti Markmannshanskanna hans Albert Camus veltir Guðmundur Björn Þorbjörnsson því fyrir sér af hverju óhefðbundnir íþróttamenn vekja eftirtekt. Hvað er svona aðlaðandi við vínrækt Andrea Pirlo, áhugaleysi Björns Bergmanns á fótbolta og kosmólógíu Kyrie Irving? Ólafur Stefánsson, fyrrum handboltamaður og einn allra óhefðbundnasti íþróttamaður íslenskrar íþróttasögu, ræðir við Guðmund Björn um hliðarnarratíf íþróttamannsins, sjálfsmynd hans og hvað hann hræðist, og hvort heimspekin geti hjálpað honum að lengra. Umsjón: Guðmundur Björn Þorbjörnsson.
    21 October 2017, 10:15 am
  • More Episodes? Get the App
© MoonFM 2024. All rights reserved.