Mannlegi þátturinn

RÚV

Um litróf mannlífsins. Umsjón: Guðrún Gunnarsdóttir og Gunnar Hansson.

  • 50 minutes 38 seconds
    Íris Tanja og Fannar um Ungfrú Ísland og Daðey um snjallsímanotkun
    Leikararnir Íris Tanja Flygenring og Fannar Arnarsson komu í þáttinn í dag, en þau leika bæði í sýningunni Ungfrú Ísland, sem unnin er upp úr samnefndri verðlaunaskáldsögu Auðar Övu Ólafsdóttur, sem frumsýnd verður í næstu viku í Borgarleikhúsinu. Sagan er um Heklu, unga konu á Íslandi og þann veruleika sem hún bjó við um miðbik síðustu aldar, þar sem það að verða rithöfundur og vera til á eigin forsendum virtist utan seilingar fyrir fyrir unga konu. Áhrif snjalltækja og samfélagsmiðla á líf okkar eru gríðarleg og ekki síst á ungu kynslóðirnar. Afleiðingar þessa geta verið alvarlegar, ekki síst þegar kemur að börnum og unglingum, ef aðgengið er óheft. Daðey Albertsdóttir, sálfræðingur á Geðheilsumiðstöð barna HH og Domus Mentis Geiðheilsustöð, fór yfir stöðuna með okkur í dag. Af hverju foreldrar ungra barna ættu að fresta því að gefa þeim snjallsíma. Góð ráð til þeirra sem vilja gefa börnum sínum snjallsíma um hvernig sé best að standa að því og svo góð ráð til foreldra barna sem eiga nú þegar snjallsíma og eru hugsi yfir notkun barna sinna á tækjunum. Daðey skrifaði greinina ásamt Silju Björk Egilsdóttur og Skúla Braga Geirdal. Tónlist í þættinum: Stingum af / Bjartey Sveinsdóttir og Guðný Gígja Skjaldardóttir (Örn Elías Guðmundsson) Vegbúinn / Elín Ey og hljómsveit úr Óskalög þjóðarinnar (Kristján Kristjánsson - KK) Þannig týnist tíminn / Páll Rósinkranz (Bjartmar Guðlaugsson) UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON
    9 January 2025, 11:03 am
  • 50 minutes
    Að setja og virða mörk og Sigurbjörn um Elvis Presley
    Okkar daglega líf felur oftast í sér að vera í kringum annað fólk, hvort sem það er á vinnustað, í námi, á meðal fjölskyldu og vina eða einfaldlega ókunnugra í ýmsum aðstæðum. Í öllum tilvikum þar sem við erum að umgangast annað fólk, hvort sem við eigum í beinum samskiptum við það eða ekki, þá reynir á mörkin okkar. Sumir eru með skýr mörk á meðan aðrir eru markalausir. Sumir virða mörk annarra á meðan aðrir gera það ekki. Þetta er áhugaverð umræða því öll viljum við að mörkin okkar séu virt en setjum við öðrum mörk og hvað þýðir það? Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafi hefur mikla reynslu af því að hjálpa öðrum á sviði meðvirkni og að setja mörk, hann kom í þáttinn í dag. Elvis Presley fæddist á þessum degi árið 1935, hann hefði því orðið 90 ára í dag ef hann hefði lifað. Sigurbjörn Arnar Jónsson er mikill áhugamaður um Elvis og ævi hans. Sigurbjörn kom fram á 10. áratug síðustu aldar í gervi Elvis, meðal annars þrisvar í sjónvarpinu. Við fengum Sigurbjörn í þáttinn í dag til að segja okkur frá Elvis Presley, ferlinum og lífi hans og af hverju hann varð svona mikill aðdáandi. Tónlist í þættinum: Ég vil fá mér kærustu / Hjálmar (lagahöfundur ókunnur, texti Indriði Einarsson) Heimförin / Ásgeir Trausti og Sinfóníuhljómsveit Íslands (Ásgeir Trausti Einarsson, texti Einar Georg Einarsson) Suspicuous Minds / Elvis Presley (Mark James) UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON
    8 January 2025, 11:03 am
  • 54 minutes 1 second
    Veganúar, hryllingsmynd Þórðar og veðurspjallið með Einari
    Í upphafi árs, á þeim tímamótum, skoðum við gjarnan stöðuna á ýmsu, það eru vörutalningar, hvernig er formið? Eftir jólin og veislurnar endurskoðum við jafnvel mataræðið. Samtök grænkera á Íslandi standa fyrir Veganúar í janúar. Það er dagskrá af því tilefni allan þennan mánuð og við fengum nýjan formann samtakanna, Aldísi Amah Hamilton til að koma og segja okkur meira frá veganúar. „Á Vestfjörðum, í afskekktri verbúð á 19. öld, þarf Eva ung ekkja, að taka erfiða ákvörðun þegar erlent seglskip strandar í firðinum,“ segir í lýsingu á myndinni The Damned, sem er sálfræðitryllir innblásin af íslenskri þjóðtrú og stórbrotinni náttúru. Myndin hefur fengið frábærar viðtökur eftir frumsýningu sína í Bandaríkjunum. Þetta er fyrsta kvikmynd Þórðar Pálssonar í fullri lengd en hann skrifaði söguna ásamt handrits höfundinum Jamie Hannigan. Þórður kom í þáttinn í dag. Veðrið leikur alltaf stórt hlutverk í lífi okkar Íslendinga og á því er engin breyting í dag. Heimsókn Einars Sveinbjörnssonar veðurfræðings er kærkomin annan hvern þriðjudag og í dag kom hann með smá viðbót við veðuruppgjör síðasta árs þar sem hann skoðar ástæður fyrir því hvað 2024 var kalt. Svo ræddi hann um ísinn á Þingvallavatni og umskipti í veðurspánni framundan. Tónlist í þættinum: Stóð ég út í tunglsljósi / Björgvin Halldórsson (lagahöfundur ókunnur, texti Heine Heinrich, íslenskur texti Jónas Hallgrímsson) Landíbus með jökri (Nú hvaða hvaða?) / Íkorni (Stefán Örn Gunnlaugsson) Sjáumst aftur / Páll Óskar Hjálmtýsson (Orlande de Lassus, texti Páll Óskar Hjálmtýsson) Never Going Back / Fleetwood Mac (Lindsey Buckingham & Christine McVie) UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON
    7 January 2025, 11:03 am
  • 52 minutes 51 seconds
    Namaste á Hrafnistu, fjármálin á mannamáli og Andrea lesandi vikunnar
    Á Hrafnistu hefur verið að innleidd hugmyndafræði sem er kölluð Namaste nálgun. Þessi nálgun er hugsuð sem hlýleg og róleg stund með það að markmiði að bæta vellíðan íbúa, draga úr óróleika og gefa starfsfólki verkfæri til að nálgast íbúa af nærgætni og kærleika. Namaste nálgun var upprunalega hugsuð fyrir fólk með langt gengna heilabilun en reynslan sýnir að Namaste stund hentar í raun öllum íbúum á hjúkrunarheimilum vegna þess hversu auðvelt það er að sníða það að persónulegum þörfum hvers og eins. Sunnefa Lindudóttir, hjúkrunarfræðingur og deildarstjóri Hrafnistu Skógarbæ, heldur utan um verkefnið sem hún sagði okkur nánar frá í dag. Næstu mánudaga ætlum við að fá Georg Lúðvíksson sérfræðing í heimilisfjármálum til þess að koma í fjármálasamræður sem mætti kalla fjármálin á mannamáli. Þar ætlar Georg, í samtali við okkur, að fræða okkur um hinar ýmsu hliðar á fjármálum, sérstaklega sem snúa að okkar daglega lífi. lánamálin, skattar, vextir, lífeyrismál, sparnaður og ýmislegt fleira. Við kynntumst Georgi í dag og ræddum við hann um heimilisbókhaldið, að koma sér í fjárhagslegt form og fleira í dag. Lesandi vikunnar í þetta sinn var Andrea Diljá Edwinsdóttir meistaranemi í þjóðfræði. Við fengum að vita hvaða bækur hún hefur verið að lesa undanfarið og hvaða bækur og höfundar hafa haft mest áhrif á hana í gegnum tíðina. Andrea talaði um eftirfarandi bækur og höfunda: All Fours e. Miranda July Dalalíf e. Guðrún frá Lundi Aðventa e. Gunnar Gunnarsson Surfacing e. Margaret Atwood The Year of Magical Thinking e. Joan Didion Úr djúpunum e. Oscar Wilde Tónlist í þættinum: Janúar / Karl Olgeirsson (Karl Olgeirsson) You Can’t Make Old Friends / Kenny Rogers og Dolly Parton (King, Schlitz & Smith) Unforgettable / Nat King Cole (Irwing Gordon) UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON
    6 January 2025, 11:03 am
  • 50 minutes 42 seconds
    Vala Höskuldsdóttir föstudagsgestur og matarspjall með soðbrauð og kæfu
    Föstudagsgestur Mannlega þáttarins í þetta sinn var Vala Höskuldsdóttir. Hún er söngkona og lagahöfundur og annar helmingur Hljómsveitarinnar Evu, hinn helmingurinn er Sigríður Eir Zophoníasardóttir. Auk tónlistarinnar hefur Vala unnið sem ráðgjafi, leikkona, leiklistarkennari, hér í útvarpinu og ýmislegt fleira. Vala er að norðan og við fórum með henni aftur í tímann á æskuslóðirnar á Eyrinni á Akureyri og fórum svo á handahlaupum í gegnum tíðina til dagsins í dag. Vala er að eigin sögn mikið tilfinningablóm og hún glímir og við ræddum meðal annars við hana um stórar tilfinningar tengdar jólunum og það að horfast í augu við þær. Hún segist vera loksins byrjuð að samþykkja það að jólaskapið sé alls konar og eftir að hún hætti að streitast á móti tilfinningunum þá losnaði um stíflu og hún hefur varla hætt að hlægja síðan. Svo var það matarspjallið, þar sem meirihluti þáttakenda var norðan heiða, en Sigurlaug Margrét var ásamt Guðrúnu í hljóðveri RÚV á Akureyri. Við ræddum meðal annars um soðbrauð og kæfu, sem þær gæddu sér á undir spjallinu. Tónlist í þættinum: Það er allt í lagi að leggja sig á daginn / Hljómsveitin Eva (Jóhanna Vala Höskuldsdóttir, Sigríður Eir Zophoníasardóttir, Sveinbjörn Thorarensen og Ívar Pétur Kjartansson) Thank You / half.alive (Brett Kramer, J.Tyler Johnson, James Alan, Joshua William Taylor, Michael Coleman) Both Sides Now / Joni Mitchell (Joni Mitchell) UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON
    3 January 2025, 11:03 am
  • 51 minutes 33 seconds
    Áhyggjur vegna ályktana í Grænbók um ADHD og Heilsuvaktin í fyrra og á nýju ári
    Nefnd skipuð af fyrrverandi heilbrigðisráðherra birti í samráðsgátt stjórnvalda á dögunum svokallaða Grænbók, þar sem skoðuð er staðan í málum tengdum ADHD á Íslandi. Skoðaðir eru til dæmis langir biðlistar eftir greiningu og algengi lyfjameðferðar. Mat nefndarinnar er að gæðum sé ábótavant, bæði þegar kemur að greiningum og lyfjameðferð. Formaður ADHD samtakanna sagði í síðustu viku að þær ályktanir sem fram koma í Grænbókinni muni valda mikilli ólgu hjá félögum samtakanna og hjá þeim sem bíða greiningar og að þar sé ýmislegt sem þurfi að skoða betur. Hrannar B. Arnarsson, framkvæmdastjóri ADHD samtakanna, var hjá okkur í dag og fór með okkur yfir niðurstöður Grænbókarinnar og tók undir áhyggjur formannsins, að ef farið yrði eftir þeim ályktunum sem þar koma fram þá gæti það verið skref aftur á bak, eða í það minnsta gæti það kallað á stöðnun í málefnum ADHD á Íslandi. Helga Arnardóttir kom svo til okkar og fór yfir það sem hún hefur fjallað um á Heilsuvaktinni á liðnu ári. Þar kennir margra grasa, t.d. blóðsykur, gjörunnar matvörur, ofþyngd barna, heilbrigði þarmaflórunnar, öndun til að róa taugakerfið, heilaörvunarmeðferð við þunglyndi, mikilvægi þess að fara í krabbameinsskimun, reynslusögur og margt fleira. Við rifjuðm upp það helsta frá Heilsuvaktinni árið 2024 með Helgu í dag og hún fór aðeins yfir það hvað yrði til umfjöllunar á nýju ári og auglýsti eftir hugmyndum og ábendingum frá hlustendum í því tilliti. Þær er hægt að senda á netfang þáttarins: [email protected] Tónlist í þættinum: Hvar er tunglið? / Kristjana Stefánsdóttir (Sigurður Flosason, texti Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson) Godess / Laufey (Laufey Lin Jónsdóttir) Why can’t you behave? / Ella Fitzgerald (Cole Porter) UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON
    2 January 2025, 11:03 am
  • 52 minutes 26 seconds
    Ársuppgjör veðurs, síðasti vinkillinn og póstkort frá Magnúsi
    UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON Við byrjuðum þennan síðasta þátt ársins með því að spá í veðrið auðvitað. Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingurinn fór með okkur yfir veðurárið sem er að líða. Það var um margt óvenjulegt. Hér fyrir neðan er uppgjörið í textaformi í fullri lengd. Hann fór svo auðvitað aðeins yfir áramótaveðrið og veðrið næstu vikuna. Guðjón Helgi Ólafsson sendi okkur í dag síðasta vinkillinn að sinni og fjallaði hann um jólahefðir, heimsósóma, persónulegan ósóma og fréttir á jóladagsmorgun. Við kveðjum Guðjón Helga sem hefur verið fastagestur hjá okkur á mánudögum sl. tvö árin og þökkum honum fyrir góða vinkla, en þeir eru 107 talsins. Ljósmengun var umfjöllunarefni póstkortsins sem við fengum í dag frá Magnúsi R. Einarssyni. Hann sagði fyrst frá hinum íburðarmiklu jólaljósaskreytingum í Eyjum þar sem snarhækkandi orkuverð hefur ekkert dregið úr jólaljósadýrðinni í Vestmannaeyjum. Í framhaldinu sagði hann frá því hvernig raflýsingin, sem hefur aðeins verið til í rúma öld, getur haft skaðleg áhrif á heilsu fólks með því að trufla hina náttúrulegu hrynjandi ljóss og myrkurs á jörðu og ennfremur hvernig ljósmengunin hefur rænt okkur fegurð næturinnar og stjörnuhiminsins. Ársuppgjör Einars Sveinbjörnssonar - veðrið 2024 Árið 2024 verður í veðurfarslegu tilliti helst minnst fyrir það hve kalt það reyndist. Í það minnsta ef mið er tekið af síðustu tveimur áratugum eftir að tók að hlýna um og fyrir aldamótin. Ísland sker sig því verulega úr hvað hita jarðar áhrærir, en 2024 stefnir á heimsvísu í að verða enn eina ferðina hlýjasta ár frá upphafi mælinga. Í Reykjavík verður árið það kaldasta frá 1995 og á landsvísu trúlega frá því 1998. Hitafarið líkist frekar því sem var hér á árabili sem kallast kalda tímabilið og varði frá um 1965 – 1995. En líklega er þetta fráviksár eitt af mörgum sem verða hér alltaf annað slagið, sem skera sig úr, enda veðráttan hér þekkt fyrir afar mikinn breytileika eins og við þekkjum. Sérstaklega þótti síðari hluti sumars vera kaldur sem og haustmánuðirnir. Í raun athyglisvert og fréttnæmt að í Reykjavík mældist hitinn undir meðallagi átta mánuði í röð, frá maí – des. Þá er miðað við meðaltalið 1991-2020. Úrkoma var hins vegar í meðallagi í Reykjavík, en um 20% meiri en í meðalári á Akureyri. Dálítið misskipt og eigum eftir að fá samanburð fyrir Suðurland og eins Vesturland þar sem ég held að endurteknar stórrigningar í sumar vegi þungt. Mikið vatnsveður á Snæfellsnesi 13.-14 júlí og sólarhringsúrkoma 227 mm. í Grundarfirði og jafnframt met á þeim stað. Svo mikil rigning að sumarlagi heyrir til tíðinda. Í raun má segja að júlímánuður hafi verið sannkallaður rigningarmánuður sunnan- og vestanlands og þannig voru sólskinsstundir í Reykjavík markvert færri en að jafnaði. En gerum upp árið að öðru leyti: Janúar þótti fremur kaldur og umhleypingasamur þegar frá leið. Eins var kalt í febrúar, en talsvert um froststillur. Litlar breytingar í mars, en þá var NA-átt ríkjandi og snjóaði norðan- og austanlands. Dálítið um það að snjóflóð féllu á vegi, en annars var veturinn að mestu laus við mikið óveður eða alvöru vetrarlægðir. Apríl var stilltur, en fremur kaldur og áfram ríkjandi NA- og N-áttir. Sólin skein linnulítið suðvestanlands og með sólríkari aprílmánuðum í Reykjavík. Það voraði vel, svona heilt yfir, eða þar til sló verulega í bakseglin með nokkuð langvinnu norðanhreti sem gekk yfir landið í byrjun mánaðarins. Snjóaði óvenju mikið norðanlands, mældust þannig 43 sm. í Vaglaskógi. Af hlaust fugladauði og tjón fyrir bændur. Eins voru umtalsverðar samgöngutruflanir miðað við árstíma. Sjálfur mat ég það svo að ekki hefði gert jafn slæmt hret á þessum árstíma í trúlega 90 ár og eldri bændur norður í Þingeyjasýslu með gott veðurminni voru sama sinnis. Sumarið þótti frekar slappt og endasleppt. Það gerði góðan kafla austanlands seint í júní og sunnan- og vestanlands náðust ágæt hey áður en lagðist í vætutíð. Aftur koma ágætur kafli í nokkra daga um miðbik júlí og þá komst hitinn í 27,5 stig á Egilsstaðaflugvelli sem jafnframt var hæsti hiti ársins. Fyrir mánaðarmótin lagðist í N-áttir og hófst þá afbrigðilegur veðurkafli sem stóð fram í september. Kalt og úrkomusamt um land allt og með lægsta meðalhita á þessari öld. Hún var einkennileg staða veðurkerfanna sem sást best á því að í ágúst mældist lægsti meðalloftþrýstingur, a.m.k. suðvestanlands, frá upphafi mælinga 1820. Kalda tíðin hélt áfram og september var sá kaldasti á landinu í 19 ár. Áfram var kalt fram á haustið, en tíðin fremur hæglát. Veðrið skipti síðan algerlega um ham snemma í nóvember, þegar gerði tveggja vikna nokkuð óvenjuleg hlýind með nokkuð hvössum sunnanáttum. Voru slegin nóvemberhitamet á fjölda veðurstöðva. Hvergi hlýrra en á Kvískerjum með 23,8 stig. Hæsti hiti sumarsins í Reykjavík var til samanburðar 17,4 stig! Leysingar og vatnavextir fylgdu með grjóthruni og skriðuföllum. Um miðjan mánuðinn snerist síðan aftur í kaldar N-áttir og umskiptin voru mjög glögg. Endaði mánuðinn á því að vera undir hitameðaltalinu um nánast allt land. Desember er ekki liðinn, hann verður enn einn kaldi mánuður ársins. Markverðar voru leysingar með talsverðum vatnavöxtum í kring um 10.des og síðan útsynningurinn um jólin með ófærð á milli landshluta, einkum á þorláksmessu og jóladag. Tónlist í þættinum: Myrkur og mandarínur / Hljómsveitin Eva (Hljómsveitin Eva - Vala Höskuldsdóttir og Sigríður Eir Zophoníasardóttir) Nýársmorgunn / Sigurður Guðmundsson(Bragi Valdimar Skúlason) Ding Dong / Kór Langholtskirkju (erl. útsetning Anders Örwall, texti Gunnlaugur V. Snævarr) Á jólunum er gleði og gaman / Eddukórinn (Höf. ókunnur, texti Friðrik G. Þorleifsson)
    30 December 2024, 11:03 am
  • 53 minutes 27 seconds
    Höfundar Skaupsins, María, Katla og Friðgeir föstudagsgestir
    Við vorum með þrjá föstudagsgesti í dag, það voru þau Katla Margrét Þorgeirsdóttir, María Reyndal og Friðgeir Einarsson, en þau eru öll í höfundateymi Skaupsins í ár. Við fórum með þeim yfir árið sem er að líða, hvernig það hefur verið fyrir þau, bæði persónulega og svo í því samhengi að vera að skrifa Skaupið. Eins töluðum við um hátíðar- og áramótahefðir og hvað þau gera á þessum tímamótum sem áramótin eru. Tónlistin í þættinum: Gamlárspartý / Baggalútur (erlent lag, texti Bragi Valdimar Skúlason) Skammdegisvísur / Ragnhildur Gísladóttir, Magnús Þór Sigmundsson, Ólafur Þórðarson Gömul kynni gleymast ei / Guðrún Árný Karlsdóttir (erlent lag, texti Árni Pálsson) UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON
    27 December 2024, 11:03 am
  • 54 minutes 30 seconds
    Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, aðfangadagsgestur Mannlega þáttarins
    Í dag, á aðfangadag jóla, bjóðum við sérlega velkomna í Mannlega þáttinn kærkominn gest, forseta Íslands, Höllu Tómasdóttur. Við áttum skemmtilegt spjall við hana um jólin, jólahald í bernsku, nútíð og jafnvel framtíð. Jólaminningar, hefðirnar, fyrstu jólin að Bessastöðum, jólahald erlendis, æskujólin í Kópavoginum, riddara kærleikans og margt fleira. Hátíðleg stund með Höllu Tómasdóttur. Tónlist í þættinum: Er líða fer að jólum / Sigurður Guðmundsson og Sigríður Thorlacius (Gunnar Þórðarson, texti Ómar Ragnarsson) Riddari kærleikans / GDRN (Dagmar Helga Helgadóttir, Valgerður Rakel Rúnarsdóttir) Dansaðu vindur / Ylja (Nanne Grönvall, Peter Grönvall, texti Kristján Hreinsson) UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON
    24 December 2024, 11:03 am
  • 50 minutes
    Sigyn Blöndal föstudagsgestur á Filippseyjum og sósuklúður í matarspjalli
    Sigyn Blöndal er nafn sem við þekkjum vel úr þáttagerð í sjónvarpi og útvarpi og þá sérstaklega hefur hún gert efni fyrir börn og unglinga. Sigyn sá um Stundina okkar lengi og þegar hún hætti hjá RUV fyrir fáeinum árum hóf hún störf se, réttindaskólastjóri UNICEF á Íslandi. En enn eru breytingar hjá Sigyn og nú í byrjun hausts flutti hún og fjölskyldan til Manila, höfuðborgar Filippseyja, þegar eiginmaður hennar fékk vinnu þar. Við slógum á þráðinn til hennar í dag og forvitnuðumst um lífið í Manila, jólahaldið þar og fleira. Sumsé Sigyn Blöndal var föstudagsgesturinn okkar í dag. Í matarspjalli dagsins fórum við með Sigurlaugu um aftur í tímann og rifjuðum upp rjúpusósusögu, eða öllu heldur hringdum við í Elísabetu Indru Ragnarsdóttur, sem rifjaði upp söguna af því þegar hún var næstum búin að klúðra jólunum með því að hella rjúpusósunni í vaskinn. Tónlist í þættinum: Hin fyrstu jól / Hljómeyki (Ingibjörg Þorbergsdóttir, texti Kristján frá Djúpalæk) Jólaundirbúningurinn / Strumparnir (Laddi) (Þjóðlag, texti Jónatan Garðarsson) Amma engill / Borgardætur (Jack Scholl, M. K. Jerome, texti Friðrik Erlingsson) UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON
    20 December 2024, 11:03 am
  • 54 minutes 32 seconds
    Sólveig Þorbergsdóttir á Heilsuvaktinni og seinni hluti örsagna ritlistarnema
    Mikill munur er á því að fara í kulnun vegna streitu og of mikils vinnuálags en í kjölfar áfalls því þá hefur maður enga stjórn á atburðarás. Þetta segir Sólveig Þorbergsdóttir myndlistarkona enhún er ein þeirra Grindvíkinga sem missti heimilið sitt til næstum þrjátíu ára vegna jarðhræringa en hún hafði ásamt eiginmanni sínum unnið að miklum endurbótum á húsinu í áraraðir. Hún keypti húsið illa farið, þá einstæð móðir með tvíburadrengi. Hún segir að betur hefði mátt hlúa að andlegri heilsu og líðan Grindvíkinga en gert var og hefur sjálf þurft að leita eftir bjargráðum til að takast á við það að missa heimilið sitt varanlega. Helga Arnardóttir ræddi við Sólveigu á Heilsuvaktinni í dag, um það hvernig hægt er að takast á við erfið áföll og eftirmála þeirra og líta á það sem jákvæða umbreytingu sem mögulega leiðir eitthvað gott af sér. Út er komin árlega Jólabók Blekfjelagsins, örsagnasafn meistaranema í ritlist við Háskóla Íslands. Sögurnar eru 28 og allar telja þær nákvæmlega 88 orð, auk titils og yfirskriftin þetta árið er „Ómerkt“. Blekfjelagsið hefur gefið út þess háttar jólabók samfellt í 13 ár. Sú fyrsta kom árið 2012 og þá áttu sögurnar innihalda nákvæmlega 100 orð auk titils. Á hverju ári fækkar orðunum um eitt og fyrir vikið eru þau núna 88. Við heyrðum fyrrihlutann á þriðjudaginn en í dag var seinni hlutinn fluttur í þættinum. Höfundar örsagnanna í dag voru: María Ramos, Jóhannes Árnason, Ösp Eldjárn Kristjánsdóttir, Vala Hauks, Ragnhildur Guðmundsdóttir, Daníel Daníelsson, Gígja Sara Björnsson, Ásta H. Ólafsdóttir, Margrét Eymundardóttir, Birta Svavarsdóttir, Patricia Anna Þormar, Lovísa Rut Kristjánsdóttir, Unnar Ingi Sæmundarson og Sturla Óskarsson. Tónlistin í þættinum: Hleyptu ljósi inn / Vigdís Hafliðadóttir og Villi Neto (Tasuro Yamashita, texti Vigdís Hafliðadóttir) It was a very good year / Frank Sinatra (Erwin Drake) It Came Upon a Midnight Clear / Ella Fitzgerald (Edmund Sears, Grace Price & Robert Black Willis) Hvenær koma jólin / Björt Sigfinnsdóttir (Aðalheiður L. Borgþórsdóttir) UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON
    19 December 2024, 11:03 am
  • More Episodes? Get the App
© MoonFM 2025. All rights reserved.